Kampavín og kransablóm á degi elskendanna

Útgefið af Tertugallerí Myllunnar þann

Sífellt fleiri pör kjósa að gera eitthvað skemmtilegt saman, og jafnvel koma hvort öðru á óvart, á Valentínusardaginn. Daginn ber upp á 14. febrúar ár hvert, og verður því á sunnudegi þetta árið.

Það er skemmtilegt að gera sér dagamun á Valentínusardaginn. Margir færa ástinni sinni gjafir, til dæmis gott súkkulaði eða blóm. Aðrir skipuleggja rómantískan dag, eða kvöldstund, með ástinni í lífi sínu. Við hjá Tertugalleríi getum hjálpað með veitingarnar. Prófaðu að panta hjá okkur nokkur kransablóm, kældu flösku af kampavíni eða freyðivíni og slakaðu á með elskunni þinni á sunnudagskvöldið.

Löng hefð er fyrir því annarsstaðar en á Íslandi að Valentínusardagurinn sé dagur elskenda. Dagurinn er nefndur eftir dýrðlinginum heilögum Valentínusi. Það er reyndar erfitt að segja nákvæmlega til um hver sá maður var, því sögur af honum virðast vera af þremur mismunandi Valentínusum sem allir urðu píslavottar.

Læknaði dóttur fangelsisstjórans
Hugsanlegt er að einn þeirra hafi verið Valentínus frá Internamna  í Úmbría-héraði á Ítalíu sem varð biskup þar um 197 eftir Krist. Annar var Valentínus, prestur frá Róm sem komst í heilagra manna tölu einhvers staðar í kringum árið 496 eftir Krists burð. Lítið er hins vegar vitað um þann þriðja sem mun hafa heitið Valentínus að öðru leyti en því að hann var tekinn í heilagra manna tölu í Afríku.

Til að komast í hóp dýrðlinga þurfa menn að framkvæma kraftaverk. Valentínus frá Róm er sagður hafa reynt að snúa Kládíusi II Rómarkeisara til Kristni, og verið tekinn af lífi fyrir. Áður en af því varð er hann sagður hafa gefið blindri dóttur fangelsisstjórans sjónina. Hann er svo sagður hafa sent henni kort, sem gjarnan er talað um sem fyrsta Valentínusarkortið.

Fuglarnir gáfu tóninn
Löngu síðar varð dagur kenndur við heilagan Valentínus gerður að degi elskenda. Það er talið hafa gerst á 14. öld þegar enska skáldið Geoffrey Chaucher skrifaði um daginn í bók sinni Fuglaþing, árið 1382. Þar sagði hann að fuglar komi saman á þessum degi til að finna sér maka. Sem þótti greinilega svo snjöll hugmynd að mannfólkið fór að apa þetta eftir fuglunum.

Talsvert styttra er síðan farið var að halda upp á daginn hér á landi. Elstu heimildir sem finnast um daginn hér á landi er frá árinu 1958, þegar bómaverslanir í Reykjavík auglýstu litla blómvendi í tilefni dagsins.

Njóttu Valentínusardagsins með ástinni í lífi þínu. Prófaðu kransablómin með kampavíni á rómantísku stefnumóti. Eða bjóddu upp á franska súkkulaðitertu með jarðarberjum og bláberjum sem engan svíkur.

Mundu að panta tímanlega
Mundu að panta tertu og annað bakkelsi tímanlega því afgreiðslufrestur á venjulegum dögum eru 2-3 dagar. Ef þú ætlar að panta fyrir helgina þá þarftu að gera það fyrir klukkan 16:00 á fimmtudegi.

Hafðu í huga að nú geturðu líka greitt fyrir vörur sem þú kaupir á vef Tertugallerísins með debetkorti.

Deila þessari færslu← Eldri færsla Nýrri færsla →