Minnumst þeirra sem draga björg í bú

Útgefið af Tertugallerí Myllunnar þann

Á þessu ári eru 90 ár liðin frá einum mesta mannskaða í íslenskri sjávarútvegssögu. Hann varð þegar togararnir Leifur heppni og Field Marshall Robertsson sukku með 68 manns innanborðs út af Vestfjörðum í febrúar árið 1925. Við minnumst þeirra og fleiri sjómanna á Sjómannadaginn á sunnudaginn, 7. júní n.k.. Á þeim degi er við hæfi að bjóða upp á góða tertu með kaffinu.

Leifur heppni var í eigu útgerðarinnar og hlutafélagsins Alliance en Robertson var breskur í eigu Hellyersbræðra frá Hull. Áhafnirnar voru að nær öllu leyti skipaðar íslenskum sjómönnum, að stórum hluta frá Hafnarfirði og Reykjavík.

Þekktu ekki miðin
Bæði skipin voru að veiðum á þeim fengsælu Halamiðum út af Vestfjörðum laugardaginn 7. febrúar árið 1925 þegar óveður skall á. Sjómennirnir þekktu lítt til óvenjulegra veðurskilyrða á þessum slóðum, snöggra veðrabrigða og mikillar ölduhæðar þegar hann blés.

Í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1965 sagði að algengt hafi verið á Halamiðum að veðurhæðin gæti breyst skyndilega á 20-30 mínútum, úr 1-2 vindstigum í 10 vindstig eða meira, með frosthörku og byl.

Þennan laugardag hafði verið stormur yfir daginn og flest skipa á miðunum hætt að toga upp úr hádegi. Í eftirmiðdaginn hvessti skyndilega og var á svipstundu komið ofsaveður með frosthörku og hríð. Veðurofsinn hélst með þessum hætti fram á mánudag.

Skipin þakin klakabrynju
Þegar veðrinu fór að slota fóru togararnir á miðunum að tínast í höfn á ný. Allir höfðu þeir látið á sjá eftir veðurofsann, skipin meira og minna brotin og illa útleikin eftir veðrið. Öllu ofan þilja hafði skolað á haf út í látunum og voru flest skipin þakin samfelldri klakabrynju frá sigluhún niður á þilfar.

Tveggja skipa var saknað þennan dag og áhafna þeirra. Í Leifi heppna voru 33 í áhöfn en 35 á Robertson eða 62 íslenskir sjómenn en sex breskir. Umfangsmikil leit á miðunum út mánuðinn að braki og líkum skilaði engum árangri.

Hátíðleg minningarathöfn var haldin um sjóslysið í Reykjavík og Hafnarfirði 10. mars árið 1925 og var efnt til söfnunar fyrir þær fjölskyldur, konur sjómanna á togurunum sem fórust, og börn þeirra, sem áttu um sárt að binda.

Minnumst þeirra sem hafið tók
Á Sjómannadaginn, sem fyrst var haldinn hátíðlegur 6. júní árið 1938 í Reykjavík, minnast Íslendingar þeirra sem hvíla í votri gröf. Þar á meðal eru þeir rúmlega sextíu sem fórust í Halaveðrinu fyrir 90 árum.

Við hjá Tertugalleríinu höfum tekið saman tillögur að tertum í tilefni dagsins. Þar á meðal eru upprúllaðar pönnukökur, frönsk súkkulaðiterta sem minnir á frönsku sjómennina sem gerðu út á miðunum í kringum Ísland á árum áður, gulrótarterta og banana- og kókosbomba.

Munið að panta tímanlega. Það tekur 2-3 daga tekur að afgreiða pantanir.


Deila þessari færslu



← Eldri færsla Nýrri færsla →